sunnudagur, 13. júlí 2014

Sulta í sjósundi

Að loknu sex vikna viðstöðulausu sumarfríi er ótal margs að minnast og það liggur við að mér vökni um augun af einskærri tilfinningasemi þegar ég lít til baka og rifja upp allar þær ómetanlegu minningar sem við fjölskyldan eigum eftir þetta sumar. Svona er maður nú mjúkur innan í sér, þótt það sjáist ekki utan frá.

Ég verð þó að játa að eftir hið ljúfa líf síðustu sex vikna er aðeins farið að örla á efnislegum mjúkleika hjá mér, af þeim toga sem er aldeilis sjáanlegur utan frá. Svona sultukenndum hjúp sem ég er aldeilis ekki vön. Já ekki ber á öðru, ég hef víst hlaupið í spik í sumarfríinu!

Ég fattaði þetta bara núna í kvöld þegar ég var búin að ganga frá farangrinum eftir síðustu útilegu og ætlaði að beygja mig eftir óhreina tauinu og gat það hreinlega ekki. Hnén rákust ítrekað í bumbuna og það gerði mér algerlega ókleift að halda áfram vinnu minni við þvottastampinn. Svo ég tróð mér í hlaupagallann (með smá erfiðismunum, enda hef ég lítið umgengist hann í sumar), og trimmaði aðeins í mildu sumarkvöldinu.
Trimmið varði heila fjóra kílómetra alls
og ég finn strax mun á mér, alveg satt.
Þar sem ég hljóp meðfram Langasandinum sá ég mér til mikillar ánægju að það var stórstraumsflóð. Sem eru eins og allir sjósundsgarpar vita kjöraðstæður til sjósundsiðkunar. Þegar ég kom heim (ekki vitund móð og másandi, heldur bara nokkuð hress) fann ég því fyrir óstjórnlegri þörf til að demba mér út í Atlandshafið og kæla mig aðeins niður. Klæddi ég mig því í sjósundbolinn minn (já, ég á sérstakan sundbol til þess arna), vafði um mig handklæði og tölti niður að sjó.

Girnilegt ekki satt?
Mikið sem ég er nú heppin að búa örskammt frá hafinu, þá eru einungis sárafáir nágrannar sem sjá til mín þegar ég er að striplast þetta. Allavega, hafið leit djúsí út og ég stóðst ekki mátið, óð útí alveg kafsveitt eftir hlaupið, og setti stefnuna á sjóndeildarhringinn. Æðarfuglinn úaði í flæðarmálinu og mávarir hnituðu hringi yfir höfði mér. Allt eins og best verður á kosið. Það var þá sem ég leit í kringum mig í sjónum og tók eftir innihaldi hans. Ég var ekki það eina sem flaut þarna, heldur ýmislegt annað sem stórstreymsflóðið hafði fundið í flæðarmálinu: þari í massavís, marglyttur, plastagnir og alls konar óhreinindi. Það var þó ekki fyrr en ég sá klósettpappírinn að ég sneri ég við og synti í land!

Ég veit ekki hversu vel þetta sést á myndinni, en ég syndi í gegnum nokkrar svona flekki af þara og rusli áður en ég áttaði mig og hætti að hlusta á æðarfuglinn og mæna dreymandi á sjóndeildarahringinn.

Eftir rosalega langa sturtu og hálfan brúsa af sápu er ég loks tekin til við þvottafjallið á nýjan leik. Sjósundbolurinn er einmitt í þvottavélinni núna. Ég reyndi samt að skola það mesta af honum fyrst, svo ekkert stíflist...

Engin ummæli: