sunnudagur, 4. maí 2014

Samlokudagur

Við áttum góðan/slæman dag í borginni í dag. Góða hlutann áttum við í Flúðaselinu í faðmi fjölskyldunnar, þar sem við átum brunch og nutum samverunnar, eins og við reynum að gera að minnsta kosti mánaðarlega. 

Slæmi hlutinn kom svo í kjölfarið, fyrst þegar við fórum í hræðilega stóra fatabúð sem auglýsir sig sem Íslands eina von. Þar voru starfsmenn haldnir illilegu tilfelli af silfurskottu-syndrominu, því þeir skutust í allar áttir ef viðskiptavinur nálgaðist eða æptu sín á milli í talstöðvar til að fá einhvern á lagernum til að finna skó í réttum stærðum (Halló... talstöðvar?! Er þetta 1985 eða hvað?). Ekkert númerakerfi og enginn þjónusta, mig var farið að svima af vanlíðan þegar við komumst loksins út. Þaðan lá leið okkar í ísbúð til að hressa okkur við, nema hvað ísinn var vondur og af því ég sá að starfsmaðurinn sleikti á sér puttana áður en hann gerði ísinn minn, þá gat ég ekki hugsað mér að borða brauðið og henti honum í ruslið (mér er alveg saman þótt tissjú hafi legið á milli slefblautra puttanna á honum og brauðsins, það telst ekki með). Einn góðan veðurdag skal mér þó takast að kvarta yfir svona afgreiðslu, en enn sem komið er þá brosi ég bara og borga. (HFF).

Ég varð því voða fegin að komast loksins heim, en samt fúl yfir því að hafa eytt sirka tveimur tímum í pirring og leiðindi. Þá flaug mér í hug samlokuaðferðin góða!

Samlokuaðferðina er hægt að nota á nánast hvað sem er. Ég nota hana til dæmis þegar ég þarf að flytja fólki slæm tíðindi:
Segjaeitthvaðfallegt-Segjaslæmutíðindin-Segjaeitthvaðfallegt

Einnig hef ég notað þetta til að fá krakkana til að gera eitthvað sem þau þurfa að gera en þeim finnst leiðinlegt: 
Segjaþeimeitthvaðskemmtilegt-Segjaþeimaðtakatilíherberginu-Segjaþeimeitthvaðskemmtilegt

Í dag, þegar við komum heim eftir þessa góðu/slæmu borgarferð, ákvað ég að prófa að yfirfæra þessa aðferð á heilan dag. Held ég hafi aldrei prófað það áður og það er skemmst frá því að segja að tilraunin tókst stórkostlega vel. Við krakkarnir skelltum okkur í skógræktina, renndum okkur nokkrar ferðir í rennibrautinni og aparólunni, gáfum öndunum brauð, fylgdust með svartþröstum og auðnutittlingum í hreiðurgerð, ég hljóp smá sprett og saman nutum við þess að vera úti í náttúrunni þar sem sólin skein, fuglarnir sungu og grasið grænkaði. Eða svoleiðis, þetta var alla vega alveg yndislegt og ég held ég geti sagt að þetta hafi algerlega bjargað deginum mínum og nú þegar honum er tekið að halla, þá gæti ég ekki verið sáttari við hann. Þökk sé samlokuaðferðinni :)










1 ummæli:

Kristín Edda sagði...

Þú ert snillingur :)