mánudagur, 22. október 2012

Af hlaupum

Langt síðan ég hef skrifað um hlaup, best að skrifa aðeins um hlaup núna. Það misfórst nefnilega alveg að skrifa það hérna að ég hljóp hálft Reykjavíkurmaraþon í ágúst. Meira að segja á rétt undir tveimur tímum og er rosalega ánægð með það. Þetta var mikil upplifun, það er bara eitthvað við það að vera hluti af þessum svakalega fjölda hlaupara, ég hefði aldrei getað ímyndað mér hljóðið sem mörg þúsund strigaskór gefa frá sér við rásmarkið, notalegt más og fnæs alltumlykjandi alla leiðina. Hor og sviti hvert sem litið er. Að vera ítrekað alveg að gefast upp en halda samt áfram og ná settu markmiði. Gottúlovit! Ég stefni sko að því að fara aftur.


Ef það er eitthvað sem er ótrúlega leiðinlegt við hlaup þá er það að hlaupa alltaf sömu leiðina. Drepið mig ekki á Vesturgötunni eina ferðina enn, eða Garðabrautinni, úff. Þegar við förum út fyrir bæjarmörkin reyni ég því alltaf að taka hlaupaskóna með og mæti víðtækum skilningi fjölskyldumeðlima. T.d. lét ég þau henda mér út í Ólafsvík um Verslunarmannahelgina og ég hljóp á eftir bílnum alla leið á Hellissand. Börnunum mínum finnst þetta ekkert skrýtið núorðið: "Ég fer út hérna, sjáumst seinna!!".
Þegar við fórum til Danmerkur um páskana hljóp ég með elsku Kristínu í Århus og tók líka smá skrens í miðborg Kaupmannahafnar. Við erum búin að vera dugleg í sumarbústaðaferðum undanfarið og þá er fátt betra en að kanna nágrennið í smá hlaupi og skella sér síðan í pottinn. Við vorum einmitt að koma úr 5 daga bústaðaferð í vetrarfríinu og ég fór 4x út að hlaupa á meðan á henni stóð, dásamlegt!

Áramótaheiti mitt um maraþon á mánuði hefur elst nokkuð vel. Fyrir utan mars (þegar ég rifbeinsbrotnaði) og september (þegar ég var últra kvefuð) hef ég alltaf náð að hlaupa maraþon á mánuði og reyndar vel það. Svo ég held ótrauð áfram, bara gaman að því. Framundan eru suddalegir, kaldir og blautir mánuðir, en ég ætla samt að að halda þessu til streitu.

Písát



1 ummæli:

Kristín Edda sagði...

Aarhus 2013, Aarhus 2013, Aarhus 2013...koma svo, koma svo!