sunnudagur, 20. júní 2010

Básar


Við fórum að Básum í Goðalandi á föstudaginn og tjölduðum í tvær nætur ásamt Snorra, Ínu og stóðinu þeirra. Okkur leist nú ekkert sérstaklega á blikuna á leiðinni þangað, því mikið er af ösku þarna á svæðinu og vegurinn erfiður yfirferðar. Greinilegt var hvar hlaupið hafði í árnar við eldgosið og sérstaklega undir Gígjökli þar sem þvílíkir jökulruðningar sýndu hvar hlaupið rutt sér leið niður í Markarfljót.

Við komumst þetta samt klakklaust, fórum bara varlega yfir vöðin og tjaldvagninn var skraufaþurr þegar á leiðarenda var komið.

Þetta var frábær ferð, við fórum í stutta göngu á laugardeginum, svokallaðan Básahring. Síðan skelltum við okkur í Stakkholtsgjá, sem er 2km djúp og einstaklega falleg. Yfirþyrmandi hamraveggirnir beggja vegna iðagrænir upp á brúnir og bullandi jökulá hlykkjast eftir gjánni miðri. Við þurftum m.a.s. að taka af okkur skóna á einum stað og vaða yfir ána, sem var í fínu lagi. Gaman að fá ösku á milli tánna, aldrei gert það áður!

Síðan var náttúrulega bara grillað og borðað út í eitt og virkileg notalegheit í hávegum höfð allan tímann. Krökkunum fannst þetta æði, þvílík ævintýri alls staðar. Ekki spillti fyrir að við skoðuðum Seljalandsfoss á heimleiðinni í bak og fyrir. Það var síðan voða gott að komast í sund Hellu og skola öskurykið af hópnum.

Dásamleg ferð, hvað ætli verði næst?

2 ummæli:

Hörður og Árný sagði...

Það er mikil öfund hér á bæ að hafa ekki komist með. Skondið að sjá myndina af Stakkholtsgjánni en hún var bara steinar og grjót í botninn þegar við vorum þar en núna er allt í svartri ösku.
Keep up the good work, sjáumst síðar!

Björg sagði...

Já, það vantaði ykkur með-í-ferð. Þið reynsluboltarnir hefðuð getað verið leiðsögumenn um svæðið og svona :)
Annars keyptum við göngukort af landvörðunum og verðum að fara aftur í Bása til að ganga meira (því það er sko nauðsynlegt að ganga fyrir allan peninginn!)