fimmtudagur, 14. mars 2013

Grjónagrautur - hinn eini sanni

Ég hef heyrt því fleygt, af afar óábyrgum einstaklingum, að það sé einfalt og fljótlegt að búa til grjónagraut og að grjónagrautur sé eitthvað sem hægt er að vippa fram úr erminni á korteri.

Mistök. Mikil mistök.

Grjónagrautur er tilbúinn á 50 mínútum. Alls ekki styttri tíma en það og helst á hann að standa aðeins lengur.

Uppskriftin mín er upprunalega úr bláu bókinni okkar mömmu en þegar ég skrifaði hana niður á sínum tíma misfórst að fá upplýsingar um tímasetningar. Eftir að ég flutti að heiman borðaði ég því misheppnaðan grjónagraut um tíma, glæran kortersgraut með hörðum grjónum, þar til ég barmaði mér við mömmu og hún leiðrétti þessa meinlegu villu.

Misskilningurinn er fólginn í því að grjónagrautur er ekki soðin hrísgrjón með mjólk eins og ég hélt í fyrstu, heldur alveg sérstakur réttur sem þarf að leggja hjarta sitt og sálu við svo útkoman verði rétt.

Í grunninn held ég nú að flestir geri þetta rétt í upphafi og sjóði saman grjón og vatn (ef notaður er einn bolli hrísgrjón, tveir af vatni). Mér er fullkunnugt um að sumir nota mjólk á þessu stigi, en þá finnst mér grauturinn frekar hafa tilhneigingu til að brenna. Lokið á ekki að vera á pottinum. Þegar vatnið er gufað upp er nýmjólk bætt útí grjónin í smáskömmtum. Athugið að í síðustu setningu voru tvö afskaplega mikilvæg hugtök sem ber að hafa í hávegum: Nýmjólk og Smáskammtar. Það er ekki hægt að búa til grjónagraut með léttmjólk og reyndar nota ég 50/50 rjóma og mjólk þegar ég geri möndlugrautinn á aðfangadag, því það er djöðveikt gott. En í það minnsta nýmjólk, ekki fara neðar í fituprósentunni en það. Hitt hugtakið er álíka mikilvægt því það þýðir ekkert að gusa líter af mjólk útí grjónin í einu, það verður að hella mjólkinni í smáskömmtum og hræra vel á milli, gefa sér góðan tíma í þetta. Ekki hafa of háan hita, þetta á bara rétt að malla.

Hella og hræra, bíða, hræra. Hella og hræra, bíða, hræra. Þar til þykktin og magnið er orðið rétt, lækka þá hitann niður á minnsta straum og halda áfram að "hræra og bíða" þar til 50 mínútur eru liðnar. Kannski bæta við meiri mjólk ef hann verður of þykkur.

Ekki fara á Facebook og gleyma sér, á meðan grjónagrauturinn er á hellunni þarf að annast hann eins og ungabarn svo hann fái vaxið og dafnað. Grauturinn á að verða þykkur, mjúkur og rjómakenndur. Eins og búðingur. Salta hann með grófu salti í lokin, ausa í skálar og láta standa í nokkrar mínútur.

Leyfa hjartanu að ráða, leggja smá sál í þetta, þú færð það ríkulega launað.

Ást og út!

2 ummæli:

Kristín Edda sagði...

Ég er sveitt að skrifa verkefni Björg! Þess vegna er ég búin að eyða drjúgum tíma í að skoða uppskriftir á netinu. Eins og maður gerir. Þegar maður er í námi.
Og sjá! ég rakst á þessa snilld! Ég hef nefnilega oft bölvað ef ég bregð mér frá grjónagrautnum og hann brennur við! Ég fann mig knúna til að sýna þér þetta - því ég man eftir þessari skemmtilegu færslu um þínar grjónagrautsraunir ;)
Ég ætla að prófa þetta næst:
http://ljufmeti.com/2012/09/05/ofnbakadur-grjonagrautur/

Björg sagði...

Úúúú, ég get alveg séð fyrir mér að þetta geti gengið. Sérstaklega í prófatörnum og verkefnaskrifum þegar börnin heimta graut á sinn disk og maður á ekki klukkutíma aflögu :)
Takk kærlega fyrir tilhugsunina, bíð spennt eftir fréttum af bragði og áferð!