Vinurinn fór í ljósmyndagöngutúr í sumarbústaðnum, mér fannst þessi ansi flott hjá honum. |
Ég byrjaði að slappast í sumarbústaðnum á sunnudaginn, en þar höfðumst við fjölskyldan við um helgina, fengum gesti, marineruðum okkur í pottinum og höfðum það reglulega gott. Eða sko, fyrir utan þetta kvef sem helltist yfir mig þennan sunnudag semsagt! Þetta hefur farið smáversnandi eftir því sem líður á vikuna og ég dreif mig bara aðeins fyrr heim úr vinnunni í dag og er komin undir teppi í sófanum að kúra mig. Ætla að reyna að fá að vera í friði hérna eitthvað frameftir, sötra teið mitt og sinna netinu aðeins (ekki má vanrækja það), með það að markmiði að ná þessu úr mér fyrir páska. Þannig séð er ég komin í páskafrí því á morgun er skírdagur og framundan er fimm daga dásemdarfrí sem ég vona að ég geti notið sem best þrátt fyrir hor og hósta.
Oooo, ég er búin að hlakka svo til páska. Það er ekki bara súkkulaðið (þótt ég hlakki óneitanlega til að brjótast inn í ávölu dásemdina sem bíður mín frammi í búri...), páskafrí hefur mér yfirleitt fundist miklu betra frí en þetta ofmetna jólafrí sem oft er ekki neitt neitt. Stundum er jólafríið ekki nema bara rétt bláhelgin, en páskafrí er alltaf fimm dagar. Það eru ekki til neinir "launagreiðendapáskar" þegar vikudagarnir raðast þannig, páskafríið er óbreytanleg stærð sem alltaf er hægt að stóla á. Annað er það sem páskar hafa umfram jól, á páskum eru engin "páskaboð" eða aðrar skyldur sem krefjast þess að maður fari úr náttfötunum, páskar eru bara frí sem hægt er að nýta í nákvæmlega það sem manni sýnist.
Þannig að hér er ég, á náttfötunum, alveg tilbúin fyrir páskafríið :)
Verð í lokin að deila ansi fyndnum samræðum sem áttu sér stað í heita pottinum um helgina. Þessi yndislegu börn sem ég á eru ósköp snjöll og mikið að spekúlera daginn út og inn. Í pottinum voru þau að velta fyrir sér ýmsum atriðum varðandi rúmmál og þyngd, fylltu skálar og glös af vatni til að finna hvað vatnið er þungt, og þrýstu þeim svo fullum af lofti á kaf til að finna hvað loftið er þungt. Alls konar pælingar. Vinurinn er á kafi að dunda sér eitthvað, þegar hann kemur allt í einu upp úr kafinu flissandi og galar á systur sína að koma í kaf og sjá dálítið fyndið. Hún lætur ekki segja sér það tvisvar og kafar með honum og þau eru eitthvað upp við mig að baða út höndum. Mér leist nú ekki á blikuna þegar þau komu upp úr, skellihlægjandi: "Mamma, lærin á þér hristast ógeðslega mikið í kafi!". Litlu dýrin voru sem sagt að hlægja að lærunum á mömmu sinni sem í þeirra augum eru frekar skvapmikil og hristast eins á maginn á Hómer Simpson þegar það er öldugangur. Að þeirra sögn. Trúi þeim samt ekki :)
Þau hættu snarlega öllum öðrum eðlisfræðitilraunum nema þessari og héldu áfram að rannsaka hvar mamma þeirra hristist mest það sem eftir var þessarar pottsetu. Ég gafst að lokum upp á þeim og fór upp úr. Og fékk kvef í kjölfarið, pottþétt út af þessu!
5 ummæli:
yndislegt (ekki kvefið þó) :)
unknown what? þetta er ég!
Hei, Ragnheiður! Sé alveg að þetta ert þú mín kæra :)
Hahah! Vá hvað ég er oft búin að hugsa að tilkynna fólki að ég verði aldrei veik... hætti alltaf við á síðustu stundu því þetta er eins og óskrifuð regla: þú verður veik, korteri síðar! Eitthvurt almætti heyrir alltaf í manni, nánast þótt maður bara hugsi þetta ;)
Hljómar unaðslega þessi páskafrísplön...Njóttu! Vonandi lætur kvefið sig hverfa sem fyrst. (mér leist samt betur á Páskaplönin ykkar í fyrra... en, það eru ekki alltaf jólin...eða... þú veist... en eins og málshátturinn segir "gott páskafrí má alltaf endurtaka. Helst árlega"
og svo dettur mér annar málsháttur í hug "vöðvar "hristast" mest í vatni"
Páskakveðja, Kristín Edda.
Ó Kristín, það er sko ekkert sem toppar páskafríið 2012! Það var einstaklega ljúft og góðar minningar þar :) Í minni minningu var mér færður morgunmatur í rúmið á hverjum degi, hátíðarkvöldverður á hverju kvöldi, rautt og hvítt eins og maður gat í sig látið, úff, það var frábært. Pottþétt eitthvað sem má endurtaka :)
Fínir málshættir hjá þér. Fékk einn góðan í egginu mínu um daginn: "Hér átti að standa eitthvað sniðugt"
xoxo
Skrifa ummæli