mánudagur, 27. maí 2013

Það styttist í frí...

... einungis fjórir dagar eftir í vinnu og svo sex vikna sumarfrí. Ég þarf reyndar að mæta á tvo fundi í júní, en það verður bara gaman.

En það er ekki bara sumarfrí hjá mér framundan, heldur líka hjá Facebook!


Það held ég nú! Þótt ég sé nú ekki mikið að gefa af mér á Facebook þá eyði ég aaallt of miklum tíma þarna inni. Að gera ekki neitt. Vona að einhver annar setji eitthvað sniðugt inn og skemmti mér. Þannig að ég ætla að setja Facebook í frí 1. júní og sleppa því algerlega að logga mig inn á þennan tímaþjóf í heilan mánuð. Þar með mun ég græða heilmikinn tíma sem ég ætla að nýta vel, lengja tímann í sólbaðinu, skrifa heil ósköp, blogga meira.

Ég er með heillangan dúndurskemmtilegan verkefnalista í kollinum. Og kvíðahnút í maganum... hvað ef einhver segir eitthvað um mig og ég sé það ekki? Hvað ef eitthvað skemmtilegt er að gerast og ég frétti ekki af því? Hvað ef allir eru að spjalla eitthvað og ég fæ ekki að ver með? Hvað ef þetta er alls ekkert góð hugmynd?!

Jú, jú, þetta er frábær hugmynd. Málið er að þegar mér dettur eitthvað ótrúlega skemmtilegt og spennandi í hug sem ég verð að deila með öðrum, þá á ég það til að setja það á Facebook. Þar verður þessi gersemi að einni setningu sem hverfur í hítina og sést aldrei aftur. Ég dauðsé eftir þeim tíma sem ég hef varið þarna inni og hefði getað notað til að skrifa eitthvað eigulegra á þessa síðu til dæmis. Og þá meira en bara eina setningu.

En heyrðu, þá er þetta orðið opinbert. Eins gott að standa sig!


Engin ummæli: