sunnudagur, 28. apríl 2013

Kosningakvak

Á mínu bernskuheimili voru tveir stórviðburðir í hávegum hafðir, svona fyrir utan jól og áramót, og þá á ég við Eurovision og kosningar. Þessi kvöld eru mér ennþá í fersku minni, öll fjölskyldan samankomin, snakk og nammi í boði fyrir alla og maður mátti vaka eins lengi og maður vildi. Ég man meira að segja yfir ískrandi spennu yfir úrslitum sem ég vissi ekki hvað þýddu í raun og veru og vissi aldrei með hverjum ég ætti að halda því foreldrarnir héldu því fyrir sig hvern þau styddu. Þetta á bæði við um Eurovision og kosningar.

Svo voru kosningar núna um helgina, fjölskyldan öll samankomin, snakk og nammi í skál og horfur á langri vöku. Þá rann það upp fyrir mér að hér á E9 er þetta bara uppskrift að ósköp venjulegu kósíkvöldi! Við sitjum hérna saman velflest föstudags- og laugardagskvöld með eitthvað gotterí og horfum á sjónvarpið eða spilum fram eftir öllu. Fyrir mínum börnum eru þessar samverustundir eflaust yndislegar, en bara hreint ekkert sérstakar! Og þeim finnast þessar kosningar ekkert sérstaklega spennandi sjónvarpsefni þannig þau kjósa kannski heldur ósköp venjulegt kósíkvöld með fjölskyldunni.

Mér sýnist aðeins vera tvennt í þessu að gera, annað hvort draga verulega úr samverustundum svo þær verði ekki svona almennar og hversdagslegar, eða gefa í. Héðan í frá mun kosningavökum alltaf ljúka með flugeldasýningu. Og Eurovision-partýin enda á því að Regína Ósk og Friðrik Ómar mæta hingað í stofuna og taka syrpu fyrir okkur og 100 bestu vini okkar.

Nema hvað.


Engin ummæli: