Oft getur maður sjálfum sér um kennt og veit upp á sig skömmina. Það gerist líka iðulega að fortíðin hreinlega hleypur mann uppi og bítur mann í rassinn. Fast. Eða svífur inn um póstlúguna alveg óumbeðin...
Það er alveg sama hversu oft ég hef skipt um lögheimili (enda hætti ég því þarna um árið þar sem það hafði barasta engin áhrif) eða hversu mikið ég hef annars lagt á mig til að fela slóðina um mig. Bít, bít og nart, nart.
Og í liðinni viku datt kunnuglegt lítið bréfkorn inn um lúguna, stílað á yðar einlægu. Gíróseðill fyrir gamlar syndir. "Greiddu mig og samviska þín verður hrein þangað til næst... múhahahaha".
Heyrðu, bíddu aðeins. Þessi saga byrjar eiginlega ekki þarna heldur miklu fyrr, í árdaga lífs míns.
Þessi syndasaga hófst nefnilega á því herrans ári 1995 meðan á 6 vikna löngu kennaraverkfalli stóð. Í minningunni var þetta ágætis verkfall, ég fór vestur í fjörðinn minn fagra og vann fyrir mér í Esso-skálanum eins og ég átti vanda til í fríum. Að komast í vinnu svona um hávetur voru þvílík uppgrip fyrir mig fátækan námsmanninn og þar sem ég sat í rólegheitunum á vaktinni gat ég séð fyrir mér alla kaffibollana og langlokurnar sem hægt væri að kaupa á Café Au Lait þegar verkfallinu lyki.
Það er nú svosem ekki brjálað að gera í Esso á Flateyri um hávetur (nema helst á föstudögum þegar allir fengu útborgað, þá fór alveg slatti af hamborgaratilboðum með súperdósum) svo ég hafði alveg nægan tíma til slíkra dagdrauma.
Súperdósir eru svo kannski efni í annað blogg... seinna!
Tímakaupið var að mig minnir 300 kall og ég gat unnið eins mikið og ég vildi. Það var því kannski ekkert skrýtið að mér fannst ég vera orðin vellauðug eftir fyrstu vikurnar. Verkfallið dróst á langinn og Café Au Lait var orðinn fjarlægur draumur svo ég fór að svipast um eftir vænlegum fjárfestingarmöguleikum.
Það var þá sem ég fékk frábæra hugmynd. Ég hefði kannski átt að fá þá hugmynd að ganga í Kvenfélagið eða eitthvað svoleiðis sniðugt, þá hefði þetta kannski ekki dregið slíkan dilk á eftir sér. En nei, ég ákvað að fjárfesta til framtíðar og láta gott af mér leiða í leiðinni.
Þarna á staðnum var nefnilega kynningarefni frá ákveðnum samtökum sem taka að sér að miðla málum fyrir munaðarlaus fátæk börn í útlöndum. Fyrir ákveðna lágmarksupphæð á mánuði (sem var alls ekki of há að mínu mati enda var ég á dúndurlaunum og moldrík þetta augnablikið) gat ég tekið að mér eitt stykki munaðarlaust barn í útlöndum. Frábært! Auðvitað skundaði ég rakleiðis í Sparisjóðinn og greiddi þennan gíróseðil með brosi á vör.
Mánuði síðar (verkfalli lokið og skólinn hafinn að nýju) kom bréf í pósti, annar gíróseðill. Ennþá var til afgangur af vinnulaunum (þrátt fyrir ómælt magn af kaffi og langlokum) svo ég borgaði, með semingi þó. Eftir þetta varð þetta tómt basl, reikningarnir komu áfram en peningurinn var búinn. Reikningunum fóru að fylgja myndir af ákveðnu barni sem myndi öðlast ágætis líf bara ef ég héldi áfram að borga. Jæks, hvað gera 17 ára óharðnaðir blankir unglingar í slíkum aðstæðum?
Ekkert veit ég um það, ég hins vegar hætti bara að borga. Gat það einfaldlega ekki eftir að peningurinn kláraðist. Smám saman fækkaði gíróseðlunum og þeir fóru að berast sjaldnar, myndirnar hættu að koma. Úff, samviskubitið maður, samviskubitið...bít, bít og nart, nart... En sem sagt, enn þann dag í dag eru gíróseðlar frá þessum samtökum að detta inn um lúguna á sirka 6 mánaða fresti og auðvitað borga ég þá.
Það er samt aðallega tvennt sem ég er að spá í varðandi þetta:
1. Hversu mikilvægur þáttur í rekstri svona samtaka eru greiðslur frá fólki sem samvisku sinnar vegna getur ómögulega hætt að borga?
2. Í hversu mörg ár hefði Kvenfélag Mosvallahrepps þráast við og haldið áfram að senda mér gíróseðla fyrir félagsgjöldum ef málið hefði snúið að þeim?
Tjah, er von að maður spyrji sig...
2 ummæli:
Þar sannast hið fornkveðna "sök bítur sekann"
Vó Thórarinn, á thessu átti ég ekki von!
Skemmtilegar pælingar Bjørg mín Bjarna, nú sem endra nær.
Sem sannar hid forkvedna ad ekki eru allir føstudagar til fjár.
Skrifa ummæli