laugardagur, 6. nóvember 2010

Bruðl eða ávani?

Mig langar að skrifa aðeins um sultu!


...Og svolítið um það hvernig við gerum hluti á ákveðinn hátt án þess að vita endilega ástæðuna. Sagan um konuna sem hlutaði sunnudags-lærið alltaf í tvennt fyrir steikingu er klassík. Mamma hennar hafði alltaf gert það þannig og þess vegna gerði þessi kona slíkt hið sama. Hvers vegna? Þetta gerðu þær vegna þess að amman hafði alltaf gert þetta svona. Þegar farið var að grafast fyrir um það hvers vegna amman gerði þetta kom í ljós að hún hafði haft gilda ástæðu. Amman hafði átt svo lítið steikarfat að það komst ekki ofaní nema í tvennu lagi!

En þá að sultunni. Eitt er það sem ég hef alltaf gert á ákveðinn hátt og vissi ekki af hverju fyrr en fyrir stuttu. Og mér þykir svo vænt um ástæðuna að úr því sem komið er mun ég engu breyta.

Þegar ég fæ mér ristað brauð þá hef ég ákveðinn hátt á því. Smjörið fer auðvitað fyrst, síðan fer sultan og osturinn síðast. Fyrir mér er þetta eðileg röðun áleggs og hitt fólkið sem setur sultuna OFAN Á ostinn er að fara algerlega rangt að þessu!

Mér finnst sagan á bak við þessa röðun yndisleg og langar að deila henni.

Ristað brauð er svona fjölskylduréttur fyrir mér, því í minningunni borðaði mamma mín ristað brauð og kaffi í hvert mál, kvölds, morgna og um miðjan dag (Hei, mín minning!). Mamma setti smjör, marmelaði og ost í þeirri röð á brauðið. Og það er ástæða þess að ég geri eins (nema með sultu því mér finnst hún bara betri en marmelaði).

Mamma hafði samt sína ástæðu eins og amman í sögunni hér að ofan. Fyrir henni voru marmelaðikaup óttalegt bruðl og jafnframt eitt af því fáa sem hún leyfði sér að bruðla með. Hefði mamma sett marmelaðið ofan á ostinn...eigandi sjö börn... þá hefði krukkan ekki dugað lengi eins og gefur að skilja. Þannig að mamma breiddi yfir bruðlið sitt og gerði það ósýnilegt með osti. Ég sé hana fyrir mér njóta sætleika hvers bita og... eftir á að hyggja... finnst mér ekkert skrýtið þótt hún hafði borðað ristað brauð í hvert mál ( Hei...aftur... MÍN minning!!).

Þegar ég spurði mömmu út í þetta þá sagðist hún ekki hafa viljað venja okkur á sætt á brauðið... ókei, kannski var það hin opinbera ástæða, en sama er mér. Ég mun halda áfram að smyrja ristaða brauðið í þessari röð og verður hugsað til mömmu í hvert einasta sinn :)

Verið góð við hvert annað,
knús, yfir og út!

13 ummæli:

Ingvar sagði...

Þetta geri ég líka en ég hef prufað að láta marmelaðið ofaná og það er bara ekki eins gott.

Björg sagði...

Enda erum við sammæðra Ingvar :) Þeir sem smyrja marmelaði ofan á vita ekki af hverju þeir missa!

Hörður og Árný sagði...

Þetta er skrýtið. Ég á þessa sömu minningu um mömmu en mig minnir að sultan/marmelaðið hafi verið ofaná. Ég smyr allavega sætajukkinu alltaf ofaná ostinn og hef aldrei gert það öðruvísi..
kv HB

Björg sagði...

Aha! Mig grunaði þetta alltaf Hörður! Þú fékkst sérmeðferð sem yngsta barn :)

Hörður og Árný sagði...

Þetta er allt að skýrast hjá mér. Þegar flest börnin voru farin að heiman, nennti mamma ekki lengur að fela þá staðreynd að það er betra að setja sultuna ofan á ostin :)

Kristín Edda sagði...

Ég set sultuna líka alltaf undir ostinn! Og hef mætt mikilli og óþarfa gagnrýni fyrir vikið.
Ástæðan er sú að mér finnst oft eins og fólk sem setur sultuna ofan á fái sultuskegg á efrivör.
Ég tek því enga óþarfa áhættu í ristaðbrauðsmálum! Svo er ég líka viss um að brauðið bragðist ekki eins vel með sultuna ofan á ;)

En kakómalt - hvort setur þú mjólkina á undan eða á eftir kakóinu?

*knús* á línuna!!!

Björg sagði...

Hey, þá erum við sultusystur!!
Þetta með kakómaltið, kakóið fer undantekningarlaust á undan mjólkinni, það er bara þannig.

En pulsur, allt undir eða sumt undir og annað ofaná?

(Og hvort eru þetta pulsur eða pylsur??)

Það væri hægt að halda endalaust áfram :)

Kristín Edda sagði...

Þá erum við sultusystur og kakósystur! Allt undir pylsuna þegar hún er keypt í sjoppu en smá sinnep ofan á hérna heima. Afgreiðslufólkið í sjoppunum setur alltaf svo suddalega mikið að það fer allt í rugl.

Ég tek hlaupaskóna með mér til Íslands um jólin - eigum við að stefna á hlaupadeit?

Björg sagði...

Jú, til er ég í hlaup, gamlárshlaupið kannski?
Eða bara nettan hring um Skaga, það er líka ágætt :)

Kristín Edda sagði...

Er gamlárshlaup? ég er til! Er það uppi á Skaga eða í Rvk? Og hvaða lengdir eru í boði?

Björg sagði...

Á Skaga, í fyrra voru í boði 2 km og 5 km. Við tökum það nú bara í nefið :)

Kristín Edda sagði...

Jeij! Hlakka til :)
Hvar getur maður skráð sig?

Björg sagði...

Þetta verður auglýst í lok des, reddum skráningu þá :)