Facebook hefur gengið af blogginu dauðu, eða því til húðar í það minnsta.
FB er enda ekki miðill að mínu skapi, of frekur á tíma, sífelldum breytingum háður og tjáningarformið takmarkað. Ef ekki væri fyrir púslið á FB væri ég löngu hætt að kíkja þar inn.
Mér finnst unaðslegt að skrifa, skrifa og skrifa og takmarkanir á því sviði eru ekki mér að skapi. Ég fæ enga útrás af skrifum eins og "kjötbollur í matinn" eða "farin í sturtu" - "búin í sturtu". Hvað þá að ég fái kikk út úr að lesa þess háttar stöðuuppfærslur.
Ein af ástæðum þess að 497 dagar eru frá síðustu bloggfærslu hér er sú að mér fannst allt í einu óþægilegt að hver sem er gæti lesið skrifin mín. Maður lokar ekki bloggsíðum (þá breytist bloggið í e-ð annað og ég gæti alveg eins bloggað á hinu takmarkaða og afmarkaða FB...) og því hætti ég að blogga.
Þar sem nú eru allir farnir á FB sé ég fram á frið og ró hér á blogginu mínu og gæti jafnvel hugsað mér að setja hingað inn færslu endrum og eins, hver veit.
Svei mér, ég held ég byrji bara að blogga aftur :)
1 ummæli:
Líst vel á það systir góð. Ég er farinn að þreytast á Fésbókinni líka. Endalaust flóð af rugli (yfirleitt).
Hef auga með þér hérna :)
Skrifa ummæli