...Og svolítið um það hvernig við gerum hluti á ákveðinn hátt án þess að vita endilega ástæðuna. Sagan um konuna sem hlutaði sunnudags-lærið alltaf í tvennt fyrir steikingu er klassík. Mamma hennar hafði alltaf gert það þannig og þess vegna gerði þessi kona slíkt hið sama. Hvers vegna? Þetta gerðu þær vegna þess að amman hafði alltaf gert þetta svona. Þegar farið var að grafast fyrir um það hvers vegna amman gerði þetta kom í ljós að hún hafði haft gilda ástæðu. Amman hafði átt svo lítið steikarfat að það komst ekki ofaní nema í tvennu lagi!

Þegar ég fæ mér ristað brauð þá hef ég ákveðinn hátt á því. Smjörið fer auðvitað fyrst, síðan fer sultan og osturinn síðast. Fyrir mér er þetta eðileg röðun áleggs og hitt fólkið sem setur sultuna OFAN Á ostinn er að fara algerlega rangt að þessu!
Mér finnst sagan á bak við þessa röðun yndisleg og langar að deila henni.
Ristað brauð er svona fjölskylduréttur fyrir mér, því í minningunni borðaði mamma mín ristað brauð og kaffi í hvert mál, kvölds, morgna og um miðjan dag (Hei, mín minning!). Mamma setti smjör, marmelaði og ost í þeirri röð á brauðið. Og það er ástæða þess að ég geri eins (nema með sultu því mér finnst hún bara betri en marmelaði).
Mamma hafði samt sína ástæðu eins og amman í sögunni hér að ofan. Fyrir henni voru marmelaðikaup óttalegt bruðl og jafnframt eitt af því fáa sem hún leyfði sér að bruðla með. Hefði mamma sett marmelaðið ofan á ostinn...eigandi sjö börn... þá hefði krukkan ekki dugað lengi eins og gefur að skilja. Þannig að mamma breiddi yfir bruðlið sitt og gerði það ósýnilegt með osti. Ég sé hana fyrir mér njóta sætleika hvers bita og... eftir á að hyggja... finnst mér ekkert skrýtið þótt hún hafði borðað ristað brauð í hvert mál ( Hei...aftur... MÍN minning!!).
Þegar ég spurði mömmu út í þetta þá sagðist hún ekki hafa viljað venja okkur á sætt á brauðið... ókei, kannski var það hin opinbera ástæða, en sama er mér. Ég mun halda áfram að smyrja ristaða brauðið í þessari röð og verður hugsað til mömmu í hvert einasta sinn :)
Verið góð við hvert annað,
knús, yfir og út!