laugardagur, 21. nóvember 2009

Gínuvandræði

Í gær fórum við fjölskyldan öll saman niður í bæ að erindast. Mjög hentugt og óhjákvæmilegt nú þegar aðeins einn bíll er á heimilinu.


Alla vega, við förum á nokkra staði og erum á ákveðnum tímapunkti stödd í tuskubúð einni hér í bæ þar sem við göngum um og skoðum. Flott búð, nýjar vörur að streyma inn fyrir jólin og fólk í stigum að hengja upp jólaskraut, mikið að gera.


Á einum stað í búðinni stendur drifhvítt par, kviknakið og bíður þess að einhver bjargi þeim frá blygðun sinni, klæði þau í jólafötin og smelli þeim út í glugga. Þau voru hálfumkomulaus greyin, þar sem þau hölluðu sér aðeins hvort upp að öðru og horfðu upp í loftið. Það er víst mjög vandræðalegt að ná augnsambandi þegar maður er allsber segja mér þeir sem það þekkja.




Hjá þessu pari heltist Sólin úr lestinni og úr varð hin mesta skemmtan.


"Oj, mamma sjáðu!", kallaði hún þar sem hún stóð í klofhæð karlsins og benti fram fyrir sig á myndarlega bunguna.

Síðan leituðu augu hennar ofar og mamman varð heldur vandræðaleg við næstu athugasemd:

"Vá, mamma sjáðu. Þessi er geðveikt massaður!!"

Sólin stakk svo höndum í vasa og lallaði sér á eftir okkur tautandi: "geeeðveikt massaður, sko".


Hehe, þetta er snillingur :)

5 ummæli:

Ingvar sagði...

Það falla margir stórir gullmolar af þínu fjölskylduborði. Snilld :)

Hörður og Árný sagði...

haha fyndið, en er búið að selja mr. musso?

Björg sagði...

Já, Ingvar. Stundum hefur maður ekki undan að sópa gullmolum undan borðinu :)

Og Hörður, það var hreinlega slegist um þann bláa þegar við létum hann fara í sumar. Ég gleymdi því hreinlega að þú værir svona heitur fyrir þessari bíltegund, annars hefði ég látið þig vita ;)

Hörður og Árný sagði...

Nei nú jafnast ekkert á við súkkuna sem ég fékk á 50 þús kall, svo er maður búinn að grafa upp 32" dekk fyrir 30 þús. Þetta gæti mussoinn ekki borist saman við ;)

Nafnlaus sagði...

Allamalla!!! Byrjuð að blogga aftur kona, án þess að láta kóng, prest og Krillu sína vita!
Mér líst vel á bloggendurkomu því það er hrein unun að lesa skrifin þín mín kæra :)

Og þessi Sól - ómæ, snillingur er vægt til orða tekið ;)

*knús* á línuna!

Kristín Edda.