laugardagur, 26. mars 2016

Af súrdeigsbakstri

Það er ýmislegt sem getur glapið hugann. Sérstaklega svona á gervihnattaöld þegar allt er í boði og allt getur gerst. Sumir neyta eiturlyfja, drekka úr hófi fram, eyða orkunni í netumræður, eða baka súrdeigsbrauð. Mér er fúlasta alvara.

Ég gekk nýverið í síðastnefnda gengið (án þess að prófa aðra hópa neitt sérstaklega, svo kannski hef ég ekki samanburð) og verð að segja að þetta er sá ljúfasti félagsskapur sem ég hef tilheyrt. Súrdeigsbakarar eru alvöru grasrótarhreyfing með lokaðan Facebook-hóp og allt, metnaðarfullt fólk með ástríðu fyrir brauðbakstri og leitinni að hinum fullkomna brauðhleif. Ég tek þátt í þeirri leit á ósköp fálmkenndan hátt, því um leið og þú opnar á það, streyma upplýsingar úr öllum áttum um aðferðina við að skapa hinn fullkomna brauðhleif. Allt á góðlegan hátt, maður lifandi, súrdeigsbakarar eru mjög kurteisir og yfirvegaðir og nýliðum eins og mér leyfist að spyrja endalausra spurninga. En ég hef undanfarnar vikur verið að fálma mig í gegnum þessar upplýsingar og náð nokkrum framförum.

Fyrst ber að kynna til sögunnar hana Veigu:
Þetta er hún Veiga. Hún er nú komin í stærri krukku.
 Veiga er sumsé súrdeigsmóðirin hér á E9 og frá henni stendur til að rækta heilan ættboga súrdeigsbrauða og jafnvel snúða og pizzur ef vel tekst til. Ég bjó hana til sjálf og fylgdi uppskriftinni hér nokkurn veginn. Nema hvað ég er hætt að henda af henni. Baka bara úr henni í staðinn og styðst þá við uppskriftina hér. Hér er til dæmis ágætlega vel heppnaður brauðhleifur í jólakökuformi:

Ágætlega vel heppnaður brauðhleifur í jólakökuformi

Ekki hafa þó allir brauðhleifar heppnast jafnvel. Sumir hefast alls ekki neitt, þótt ég skeri út flott mynstur á þá.
Flottur útskurður er ekki ávísun á flotta hefun...
Nú er ég á leið til Reykjavíkur í innkaupaferð. Ég stend í stað sem súrdeigsbakari og engin þróun hefur verið undanfarna daga, sem er slæmt þar sem mér hefur ekki tekist að mastera súrdeigsbakstur ennþá. Kenni ég því um að ég á ekki nóg af dóti ætluðu í brauðbakstur, og ætla því að kaupa eitt og annað sem gæti komið mér á næsta stig súrdeigsþroskans. Ég meina, það sér það hver maður að súrdeigsbrauð á ekki heima í jólakökuformi eða á bleikri silikonmottu! Á innkaupalistanum eru því steypujárnspottur, hefunarkarfa og deigskafa. Við Veiga erum fullar tilhlökkunar og bíðum spenntar eftir næsta brauðhleif, þetta verður allt annað líf!

Engin ummæli: