miðvikudagur, 6. janúar 2016

Þrettándinn

Þrettándinn er í dag og það þýðir að ég er enn ekki of sein að skrifa jólafærsluna. Þá sem ég hafði mig ekki í að skrifa fyrr sökum anna. Jú, sjáðu til, ég var of önnum kafin við að borða góðan mat og hafa það notalegt daginn út og inn!

Eins og vant er fóru jólin á E9 fram með hefðbundnum hætti og mikil ósköp sem við erum ánægð og þakklát fyrir gjafir og kort sem við fengum og sérstaklega þann tíma sem við áttum með fjölskyldu og vinum.
Jólabörnin hafa aðeins stækkað frá því í fyrra og eru farin að skyggja á tréð.
Á næsta ári verða þau látin standa fyrir aftan tréð, því er farið að líða illa yfir þessu!
Um áramótin beygðum við rækilega af leið og snerum á allar venjur sem við höfum nokkurn tímann reynt að koma á. Sem eru reyndar fáar. Áramótin hafa alltaf verið í lausu lofti hjá okkur og laus við allar hefðir þannig að ég hef aldrei getað notið þeirra af neinu viti. Því ákváðum við að prófa nokkuð sem við höfum aldrei gert áður, að vera í bústað yfir áramót. Snorri og Ína voru með hópinn sinn í bústað í grenndinni og það er óneitanlega gaman að vera fleiri saman á þessum tímamótum og gaman að geta kíkt í heimsóknir og borðað saman og slíkt. Þetta var óskaplega notaleg ferð, mikil rólegheit og slökun út í gegn. Kannski of mikil, því ég sem er vön að byrja árið af krafti í skipulagningu og sjálfspeppi gat ekki hafist handa við það fyrr en við komum heim þann 4. janúar! Sat bara á náttfötunum og át í staðinn, fór í göngutúra og skoðaði stjörnurnar úr pottinum! Þvílíkt lúxuslíf :)
Ég tók nú fáar myndir í Húsafelli, en hér er ein góð
af okkur Sól og Kópi í göngutúr.
En nú er komið að skipulagsvinnunni og sjálfspeppinu sem tilheyrir þessari árstíð og maður minn hvað ég hef mikið af hugmyndum núna!

Ég hef aldrei strengt áramótaheit, en í staðinn ákveð ég það sem ég vil kalla "áramótaáherslu". Þetta er eitt orð eða stutt setning sem ég hef að leiðarljósi allt árið og oftast þyrpast önnur orð að og vilja fá að vera með og það er ekki langt liðið á árið þegar ég er komin með heilt orðaský sem styður við þessa áramótaáherslu mína. Pælingin er aðeins dýpri en þetta, og ég stefni jafnvel að því að gefa nákvæmari leiðbeiningar síðar.

Ég vil aldrei ljóstra upp um áhersluna mína fyrr en eftir á, en sem dæmi þá get ég nefnt að fyrir nokkrum árum var ég afar óhamingjusöm af ýmsum ástæðum. Auðvitað er slíkt ástand með öllu óþolandi og eðlilega var áramótaáherslan mín það árið "Hamingja". Allt sem ég gerði það árið, gerði ég með mína eigin hamingju að leiðarljósi. Stórt orð, ég veit. Enda leið ekki á löngu þar til fleiri orð hópuðust að og hjálpuðu til og gerðu það að verkum að þetta ár varð að einum af mínum bestu. Og um ókomin ár bý ég að hamingjunni sem ég öðlaðist þarna, án þess þó að láta staðar numið þar því á hverju ári bæti ég við nýrri áherslu, nýjum vinkli sem ég vil fá.

Yfirleitt er ég ekki svona stórtæk í áherslum, en umrætt ár var svo sannarlega þörf á því og síðan þá hef ég ekki eytt einum einasta degi óhamingjusöm. Kannski eytt einum og einum klukkutíma í smá bömmer, en aldrei meira. Það er ekki nema von að mér finnist þetta bráðsnjallt!

Legg ekki meira á lesendur í bili, farin að sinna áramótaáherslunni 2016 sem er að nálgast það að taka á sig lokamynd :)

Engin ummæli: