Tóti sagði upp vinnunni sinni í vor og fór að vinna sjálfstætt, keyrir ljósmyndara um landið okkar og sýnir þeim fegurðina sem í því býr. Enn sem komið er er þetta ekki fullt starf svo hann er líka að keyra fyrir aðra ferðaþjónustuaðila og að smíða, en þessi þrjú hlutastörf ganga samt ótrúlega vel og hann stendur sig frábærlega. Við þurftum að endurnýja bílaflota heimilisins út af þessu, seldum báða bílana og keyptum Patrol til fólksflutninga og núna rétt fyrir áramótin keyptum við líka lítinn gamlan Pusjó til að snattast á, enda ómögulegt að vera bíllaus þegar Tóti er í túr.
Sjálf hóf ég mastersnám í upplýsingafræði í haust og ætla að mjatla þá gráðu í rólegheitunum næstu árin, þetta á ansi vel við mig á alla kanta, bæði fyrir skipulagsfríkið með fullkomnunaráráttuna og grúskarann með sköpunargleðina.
Framundan eru merkilegt ár, því Vinurinn fermist þann 12. apríl og það er jú óneitanlega dálítið fullorðins að vera að fara að ferma (!) Svo ætlum við til Barcelona í vor og jafnvel eru fleiri utanlandsferðir á teikniborðinu svo þetta verður ævintýralegt ár.
Eins og venjulega ætla ég líka að vera dugleg að blogga reglulega, því þessi síða er ómetanleg heimild um líf okkar allra, sérstaklega fyrir mig sem kann að lesa milli línanna, hehehe :) Hér koma nokkrar myndir frá gærkvöldinu, sem við eyddum hér heima við sprengjugleði og glaum.
Sólin skemmti sér konunglega á gamlárskvöld |
Systkinin með blys |
Vinurinn er mikill áhugamaður um sprengjur og telur gamlárskvöld vera skemmtilegasta kvöld ársins! |
Spilað á nýársnótt |
1 ummæli:
Gleðilegt ár Bogga mín og takk fyrir allt gamalt og gott.
Skrifa ummæli