sunnudagur, 13. janúar 2013

Fjögurra daga helgi

En yndisleg og dásamleg helgi! Það er ekkert annað :)

Mér finnst helgarnar verða svo svakalega drjúgar ef maður kemur sér í gírinn strax á fimmtudegi og á fimmtudaginn fórum við Tóti einmitt á frábæra tónleika með SoundPost á Café Haiti. Alveg yndislegt að hitta Halla og Hörpu og sjá og heyra þau koma fram. Föstudagurinn var ljúfur, ég gerði kjúklingasúpu í kvöldmatinn og þurfti ekki að elda meira það sem eftir lifði helgar því síðasti dreitillinn rann ljúflega niður í kvöld, sunnudagskvöld :) Laugardagurinn var rólegur framan af, smá þrif, hamstrabúrin tekin í gegn og unglingapartý undirbúið, prinsinn er að verða 12 ára í næstu viku. 12 ÁRA, ég meina það! Ég hef nú aldrei vitað annað eins rólegheita-partý, það þurfti ekki einu sinni að sópa þegar þessar elskur voru farnar og ég lét þau vita að þeim væri meira en velkomið að halda öll sín unglingapartý á E9.

Svo kom sunnudagurinn. Fjórði dagur þessarar helgar (út af þessu með fimmtudaginn manstu?) og framan af leit nú út fyrir að ég ætlaði ekki úr náttfötunum. Sem betur fer dreif ég mig úr þeim seinnipartinn og skellti mér upp á Háahnúk með Neró og þar horfðum við saman á sólsetrið. Svakalega flott veður, snjór yfir öllu, él á köflum en annars bjart. Alveg yndislegt og gaf alveg tóninn fyrir næstu viku sem verður væntanlega ein sú mest spennandi um langa hríð. Kannski verður meira sagt frá því síðar, en auðvitað á maður ekki að drífa sig svo eða hugsa svo mikið um það sem framundan er að maður gleymi að njóta því sem er akkúrat núna. Þess vegna tók ég myndir í dag! Svo ég geti notið aðeins lengur :)








Engin ummæli: