laugardagur, 27. september 2014

Hveravellir

Um síðustu helgi nutum við fjölskyldan fallegra haustdaga í sumarbústað í fullkominni afslöppun og notalegheitum. Jú, ég viðurkenni það að ég hlustaði reyndar á einn fyrirlestur um vefstjórnun, en lét þar við sitja hvað lærdóm varðar og sneri mér aftur að notalegheitum og afslöppun um leið og fyrirlestri lauk. Góður matur, heitur pottur, sófakúr, góðir gestir á sunnudeginum og aukafrídagur á mánudeginum, hvað er hægt að hafa það betra!

Laugardaginn notuðum við í bíltúr upp að Hveravöllum, við frekar dræmar undirtektir allra fjölskyldumeðlima sem eru undir 170 cm að hæð. Um tíma kvartaði ég sjálf meira að segja sáran við leiðsögumanninn okkar, sem brunaði með okkur upp á hálendi á þessum árstíma á þessum hræðilega holótta vegi með allt of lítið nesti meðíferð. 

Hveravellir sjálfir voru algerlega dýrðlegir, þvílík vin í þeirri eyðimörk sem hálendið virðist vera þegar maður hossast um á vondum vegi og hvergi stingandi strá í augsýn.

Fólkið mitt við Strokk



Þetta áhrifamikla verk stendur á Hveravöllum, tvö steinhjörtu innilokuð undir fargi á bak við rimla, þau komast hvergi en hvíla þarna saman. Fallegt verk í ljósi þess að á Hvervöllum áttu Eyvindur og Halla skjól um tíma. Var ég einhvern tímann búin að segja frá ást minni á þeim? Nei, ég á það sjálfsagt eftir :)






Öskurhóll

Á slóðum Eyvindar og Höllu

Taraaa! Fundum Eyvindarhelli og skriðum ofan í hann, auðvitað.


laugardagur, 6. september 2014

Lattélap

Sú var tíðin að ég gat valsað inn á hvaða kaffihús sem er í 101 Reykjavík og látið eins og heima hjá mér, enda eyddi ég í þá tíð meiri tima þar en heima og naut hverrar mínútu. Ég vissi hvar skemmtilegasta fólkið hélt til, hvaða kaffihús væru gjafmildust á ábótina, hvar tíðkaðist að spila, hvar var venjan að sitja í þögn og lesa og hvar mátti dansa uppi á borðum. Á kaffihúsum lærði ég undir próf, skrópaði í skólanum, eignaðist vini, spilaði Kana og Manna og drakk kaffi. Með mjólk.

Síðan eru liðin mörg ár. Greinilega.

Um daginn átti ég stefnumót við vinkonu á kaffihúsi í miðbænum og var mætt aðeins á undan henni á kaffihús sem ég hafði aldrei komið á eða heyrt um, enda var þarna rekin antíkbúð síðast þegar ég vissi. Greinilega er þetta vinsælt kaffihús, því ég settist við eina lausa borðið á staðnum allsendis óafvitandi um hvað beið mín.

Ég litaðist um og reyndi að átta mig á aðstæðum þarna inni og ríkjandi stemningu, eins og maður gerir þegar sest er inn á ókunnan stað í fyrsta sinn. Enginn kom til mín að taka niður pöntun, en þó voru gestir staðarins með rjúkandi kaffi í bollum fyrir framan sig, svo ég afréð að yfirgefa umsetna borðið mitt og fara í röðina við afgreiðsluborðið til að panta mér kaffi. Þar borgaði ég 470 krónur fyrir kaffi (kallað Americano nú til dags...) og var sagt að setjast aftur, því kaffið kæmi til mín.

Sem það og gerði eftir stutta stund þegar afgreiðslukona kom með kolbikasvart kaffið og lagði á borðið fyrir framan mig.
-Gjössovel!
-Takk, get ég fengið mjólk?
Sárasaklaus spurning svo ég átti von á sáraeinföldu svari sem lét á sér standa.
-Mjólkin er sko þarna hinu megin, svaraði kvendið og benti með vísifingri þvert yfir staðinn. Þar grillti í borð þar sem drifhvít mjólkurkanna stóð á bakka
-Ó. Á ég þá að fara með bollann minn sjálf þangað og sækja mér mjólk?
-Já! Nema að ég geri það fyrir þig, en þá væri ég að veita þér alveg sérstaka þjónustu.

...

Ég var alveg hlessa, eins og gefur að skilja. Í alvöru, síðan hvenær telst það til sérstakrar þjónustu að fá mjólk í kaffið á kaffihúsi? Alveg undrandi sagðist ég myndi þiggja þá sérstöku þjónustu með þökkum. Hin sérlega þjónustulundaða kaffimær skautaði því næst bak við afgreiðsluborð og leit ekki einu sinni í áttina að mjólkurkönnunni minni.

Huh!

Ekki leið á löngu þar til ég áttaði mig á því að mjólkurmeyjan mín væri horfin að eilífu. Búin að gleyma mér og þeirri sérstöku þjónustu sem hún bauðst til að veita mér. Ég þurfti því að yfirgefa umsetna borðið mitt í annað sinn og fikra mig með kaffibollann í gegnum þvöguna í átt að mjólkurkönnunni. Næstum búin að detta tvisvar og hella innihaldinu yfir gesti og gangandi, enda er ég ekki þjálfaður kaffibaristi og höndla illa svona jafnvægisæfingar.

Einhverra hluta vegna var kaffið ekki mjög heitt þegar ég loks komst til að drekka það.