fimmtudagur, 24. apríl 2014

Borgarferð

Í gær fórum við hjónin með nokkrum vinum í borgarferð, þar sem við fórum út að borða, sáum sýninguna Baldur í Borgarleikhúsinu, kíktum í bæinn og gistum svo á hóteli. Alltaf gott að fara svona öðru hverju, en maður er óneitanlega ósköp lúinn í dag einhverra hluta vegna.
Flottur hópur
Ég hef aldrei hlustað á Skálmöld af viti og verð yfirleitt þreytt á þungarokki til lengdar, slekk bara eða skipti um stöð, svona oftast alla vega. Fíla eitt gott lag með Rammstein og annað gott lag með Tý, og hef ekki lagt eyrun við annað í þessari tónlistartegund, sorrý með mig... Þess vegna er sýningin Baldur eins og sniðin fyrir fólk eins og mig! Þungarokk gert aðgengilegt fyrir alla, mjög skemmtileg sýning þar sem þrír trúðar fara á kostum og segja söguna af Baldri (af því enginn skilur það sem söngvarinn er að segja...) á milli þess sem Skálmöld flytur okkur tónlistina sem segir sömu sögu. Trúðarnir voru yndislega fyndnir og ég verð að segja að Skálmöld hækkaði talsvert í áliti hjá mér, það fór ekki á milli mála að þarna eru á ferðinni afar færir tónlistarmenn sem fluttu vönduð lög af stakri snilld og fagmennsku og höfðu gaman að. Lögin fannst mér óvenju melódísk af þungarokki að vera og ég raulaði alveg nokkur lög eftir sýninguna. Núna langar mig bara að eiga disk með Skálmöld, held hann fái að fljóta með okkur í bílnum í sumar.
Skálmöld á sviði í Borgarleikhúsinu, algerlega ógleymanlegt!
Næstu dagar verða ansi þétt skipulagðir hjá mér, vorin virðast oft verða þannig hjá mér og ég kann ágætlega við það. Það er prófatíð og ég á eftir að skila einni ritgerð sem gildir 50% og læra fyrir eitt 100% lokapróf og þá er önnin búin. Ofan á þetta bætist að kórinn minn er að æfa á fullu fyrir tónleika auk þess sem það er óvenjumikið um að vera í vinnunni, svo það er bara allt á hvolfi. Nei djók, ekkert á hvolfi, þetta er allt saman afskaplega vel skipulagt og mun algerlega allt saman ganga upp eins og venjulega. Ég hef nefnilega margoft lent í því að hafa tekið svo mikið að mér að ég sé ekki fram úr hlutunum, þetta er sko alls ekki í fyrsta skipti! Og í öll hin skiptin gekk allt eins og í sögu og því skyldi ég ætla að þessi törn verði eitthvað öðruvísi :)

Ætla að snúa mér að verkefnalista dagsins, ekki seinna vænna að hefjast handa!
Kveðja,
átakssjúki lotufíkillinn ♥♥♥

1 ummæli:

HelgaB sagði...

Gangi þér vel í törninni framundan ofurkvendið þitt! Þú ert í góðri þjálfun og massar þetta eins og annað :)